Nýskráning

Það er ókeypis!

Ég er kennari

About

Aðferðafræði námsvefsins Icelandic Online – BÖRN styðst við rannsóknir á grunnþáttum læsis og raunprófuðum kennsluaðferðum á fyrsta stigi læsis barna sem eru að tileinka sér málið á sama tíma. Grunnáherslur í kennslunni eru:

 • tengsl hljóða og tákna
 • sjónorð (stutt algeng smáorð sem nemendur læra að þekkja)
 • lesskilningur og lesfimi

  • orðaforði sem tengist heimi barna
  • einföld setningagerð.
 

Kennslan byggir á eftirfarandi meginreglum:

 • textar hvetji til lesturs
 • stafir, orð og einfaldar setningagerðir eru endurteknar til að þjálfa bæði íslensku og lesfimi
 • stafir, orð og einfaldar setningargerðir eru kenndar í merkingarbæru samhengi með hjálp söguþráðar og skemmtilegra persóna
 • orð tengjast samskiptum barna og skólastarfi.
 

Námsvefnum er skipt upp í sjö námskeið. Í í fyrstu námskeiðunum er lögð áhersla á tæknina að lesa, þ.e. annars vegar að tengja íslensku hljóðin við íslenska stafi og hins vegar að læra að þekkja smáorð (sjónorð) án þess að þurfa að umskrá þau. Hvort tveggja krefst endurtekningar og þjálfunar og koma því sömu hljóð og orð oft fyrir í efninu en á mismundandi vegu, m.a. í leikjum. 

 

Æfingar eru tengdar saman með söguþræði og sömu persónur fylgja nemendum út námskeiðin. Með endurtekningu orðaforða er leitast við að þjálfa íslenska málfærni samhliða því að börnin læra að lesa. Þetta á líka við um óalgeng orð sem koma fyrir í textum. Í námskeiðum þrjú til sjö er áherslan á tengingu stafa í stutt orð og setningar í merkingarbæru samhengi.

Námskeið 1-2: Stafir og orð

Námskeið 3: Ari

Námskeið 4: Vinir

Námskeið 5: Sumarhátíð

Námskeið 6: Veiðiferð

Námskeið 7: Skólinn.

Athugið að námsvefurinn nýtist best sem ítarefni og kemur ekki í stað góðrar lestrarkennslu. Ekki er til ein kennsluaðferð sem hentar öllum nemendum en hér að neðan er samantekt um helstu atriði sem einkenna lestur á móðurmáli og lestur fjöltyngdra barna.

Kids

Lestrarkennsla á fyrsta og öðru máli

Í lestrarkennslu og námi á fyrsta máli eru flestir fræðimenn sammála um eftirfarandi meginatriði:

 1. Mikilvægi þess að þjálfa tengsl milli hljóða og tákna í upphafi læsis.
 2. Mikilvægi þess að læra að þekkja smáorð og algeng orð (sjónorð) án þess að þurfa að umskrá.
 3. Því meiri sem orðaforði barnsins er því meiri verður lesfimin.
 4. Góð lesfimi er undirstaða lesskilnings.
 5. Mikilvægi myndmáls, titla og undirtitla fyrir lesskilning.
 6. Mikilvægi mikils yndislesturs til að auka orðaforða, lesfimi og lesskilning.
 7. Miklvægi góðrar kennslu og umræðu um texta fyrir góðan lesskilning.
 8. Mikilvægi mismunandi textategunda (e. genre), t.d. fagtengdra texta og lesskilnings.
 9. Mikilvægi námstækni við lestur.
 10. Áhrif félagslegrar stöðu nemenda, sjálfsímyndar og bakgrunnsþekkingar á þróun læsis.
 11. Mikilvægi tengsla á milli ritþjálfunar og lesfimi/lesskilnings.
 

Í lestrarkennslu og námi fjöltyngdra nemenda eru fræðimenn sammála um eftirfarandi meginatriði:

 1. Áhrif fyrsta máls (M1) á þróun læsis á öðru máli (M2) (t.d. mismunandi áhrif dönsku og japönsku á lestur á íslensku).
 2. Áhrif ósamræmis í umskráningu og tengslum hljóða og tákna á M1 og M2.
 3. Börn eiga almennt ekki erfitt með að tileinka sér málhljóð sem fullorðnum reynast erfið.
 4. Grunnorðaforði verður að vera til staðar í M2 til að nemandinn geti lesið sér til gagns á M2.
 5. Ekki er alltaf fylgni milli lesfimi á M1 og M2 þó að tæknin að lesa yfirfærist.
 6. Lesfimi og bakgrunnsþekking í fyrsta máli og menningu hafa áhrif á lesfimi/lesskilning í M2.
 7. Uppbygging mismunandi textategunda hefur áhrif á lesfimi.
 8. Mikilvægi ríkulegs orðaforða í lesfimi, bæði grunnorða og sérhæfðra orða.
 9. Mikilvægi námstækni í lesfimi.
 10. Mikilvægi mikils yndislesturs á orðaforða, lesfimi og lesskilning.
 11. Áhrif mismunandi félags- og menningarlegs bakgrunns nemenda á læsi og lesskilning.
 12. Mikilvægi jákvæðra viðhorfa skóla, kennara, foreldra og nemendanna sjálfra til fjöltyngis og samhliða notkunar fleiri en eins tungumáls (e. translanguaging).
 13. Mikilvægi mismunandi textategunda, t.d. fagtengds lestrar, til að efla lesskilning og lesfimi.
 14. Mikilvægi tengsla á milli ritþjálfunar og lesfimi/lesskilnings.
 

(Oxford, 1990; Birna Arnbjörnsdóttir, 2000; Nation, 2001; Connor, 2002; Bogaards og Laufer, 2004; Grabe, 2008; Swales, 2011; Steinunn Torfadóttir, 2011; Jóna Guðrún Guðmundsdóttir, 2015; Garcia og Wei, 2018; Renata Emilsson Peskovà, 2021; Ásrún Jóhannsdóttir, 2022)

Kids